Ný skýrsla um starfsþróun gefin út hjá ESB

skyrslaKapaEvrópusambandið gaf nýlega út skýrslu um starfsþróun kennara: Innovating Professional Development in Compulsory Education. Þar er bent á þá augljósu staðreynd að starfsþróun kennara er meginforsenda umbóta í menntamálum og lykill að betri kennslu og námi í takt við þróun samfélagsins. Önnur skýrsla mun fylgja á næstunni þar sem greindar eru fjölbreyttar aðferðir til að bæta starfsþróun kennara.

Í skýrslunni er bent á þrjátíu dæmi eða fyrirmyndir víðs vegar úr heiminum þar sem reynt er að víkka út skilgreiningar á starfsþróunarhugtakinu og reyna nýjar framsæknar aðferðir til að styðja við þróun kennara í starfi og sigrast á hindrunum og takmörkunum sem skólafólk stendur frammi fyrir þegar það leitast við að bæta störf sín og starfsaðstæður.

Í skýrslunni er sérstaklega bent á hvernig staðbundin samstarfsverkefni og nýting nýrrar tækni getur skapað nýja vídd í starfsþróun kennara og framsæknu námi nemenda þeirra. Eitt íslenskt dæmi er nefnt í skýrslunni en það er Samspil 2015 sem Menntamiðja stóð fyrir og Samspil 2018, sem nú er í gangi í samstarfi við Samstarfsráð um starfsþróun kennara og Menntunar fyrir alla.