Frá fagráðsfundi

Fundur var haldinn í fagráðinu 26. nóvember sl. Á fundinum voru dregnar saman tillögur og efni í tillögur sem ræddar hafa verið á vettvangi fagráðs s.s. innan vinnuhópa, á opnum fundum, á fagráðsfundum og í baklandi aðila fagráðs. Markmið fundarins var að fjalla um stefnu fagráðsins, móta hana að vissu leyti og skerpa. Hér má sjá vinnuhópa að störfum:

A
Ragnheiður, Aðalheiður, Ársæll, Dagrún og Kristín ræddu sérstaklega um starfsþróun og kennaramenntun.

B
Ingibjörg, Edda, Sigurjón, Sigurbjörn, auk Guðmundar og Sigríðar Huldar sem voru tengd með Skype (sjá spjaldtölvu í rauðu hulstri) ræddu um stoðkerfi starfsþróunar.

C
Guðni, Þórður, Guðbjörg, Svanhildur og Jón Torfi ræddu um fjármagn og farvegi þess.

Sérstaklega var fjallað um starfsævilanga kennaramenntun. Útfrá þessum tveimur orðum má finna mörg önnur orð eins og Ingibjörg Kristleifsdóttir kom auga á: Starf – star – ævi – löng – öng – vil – sævi – arf – arfs – tarf –kenna – kennara – enn – menntun – menn – men…

Kristín Valsdóttir orti:

Menntun kennara ærir menn
magnað það taki heila ævi.
Í skilgreiningasjó er nefndin enn
svamlandi á djúpsævi.

kenna er klárlega magnað starf
en kennarar stundum þó lenda í öng.
Því þó kraftar og orka sé á við tarf
þarf menntun að vera löng.

Þetta ég skil
og þess vegna vil
kennaramenntun sé (að minnsta kosti) starfsævilöng.